Tilkynningar

25.06.17

Balletskólinn hættir

Kæru nemendur og foreldrar.

Næsta haust standa fyrir dyrum breytingar í starfsemi Balletskóla Sigríðar Ármann. Balletskólinn mun þá hætta formlegri starfsemi eftir 65 ára starf.
Eftir langan og farsælan feril sem elsti einkarekni balletskóli landsins er komið að leiðarlokum. Jafnframt því að skólinn stóð á tímamótum í lok síðasta starfsárs þá hélt ég upp á 35 ára starfsafmæli sem balletkennari í skólanum. En núna hef ég ákveðið að stefna á önnur mið og draga mig í hlé frá balletkennslu og rekstri skólans.
Síðustu ár hafa verið afar farsæl í starfsemi skólans og er mér það mikils vert að hafa lokið síðasta árinu þar sem skólinn var í miklum blóma. En hætta skal leik þá hæst stendur. Ég hugsa með hlýju til allra þeirra nemenda og foreldra sem skyggnst hafa með okkur inn í spennandi og töfrandi heim klassíska balletsins síðustu áratugina.
Ég þakka ykkur fyrir samveruna í gegnum árin. Vinnan með ykkur hefur verið mjög ánægjuleg og gjöful. Ef ég á einhvern hátt get aðstoðað ykkur eða ráðlagt ykkur t.d. varðandi val á nýjum skóla þá er ykkur velkomið að hafa samband.

Með von um bjarta og góða framtíð.