Um skólann

Balletskóli Sigríðar Ármann var stofnaður 1952 og er elsti einkarekni balletskóli landsins. Frá upphafi hefur markmið skólans verið að kenna klassískan ballet, eftir viðurkenndum þekktum kennslukerfum sem hæfa nemendum á mismunandi aldri. Allir kennarar skólans hafa viðurkennd kennarapróf í klassískum ballet. Dansgleðin hefur verið leiðarljósið inn í skipulagðan heim balletsins, sem nemendur okkar hafa kynnst í gegnum kennslustundir, æfingar, próf og sýningar.

Kennslan

Í forskólakennslu er nemendum 3-6 ára kenndar undirstöðuæfingar fyrir ballet, látbragð, látbragðsdansa o.fl. Börnum 7 ára og eldri er kennt samkvæmt kerfi Royal Academy of Dancing, og N.A.T.D. Russian Method. Tekin eru stigspróf og árlega fá nemendur tækifæri til að sýna á sviði í Borgarleikhúsinu.

Vetrarstarf skólans er með hefðbundnum hætti. Kennsla hefst í byrjun september, bæði fyrir byrjendur (3 ára yngst) og framhaldsnemendur. Fyrir jól eru 12 vikna námskeið og 12-14 vikna námskeið eftir áramót, með tveimur kennslustundum í viku.

Hjá 3–5 ára börnum enda bæði námskeiðin með sýningu og foreldradegi í kennslusal. Hjá 6 ára börnum og eldri endar fyrra námskeiðið með foreldradegi í kennslusal, og síðara námskeiðið endar á nemendasýningu í Borgarleikhúsinu.